Fjármál og rekstur
Hagstofa Íslands var rekin með 7,9 m.kr. tekjuhalla árið 2021, en með 28,9 m.kr. halla árið áður. Afkoma er því heldur betri en undanfarin ár, þrátt fyrir nokkra lækkun sértekna og var vel innan fjárheimilda vegna ónýttra fjárveitinga frá fyrri árum.
Tekjur
Heildartekjur Hagstofu Íslands árið 2021 námu 1.830 m.kr. og jukust um 3,8 prósent frá fyrra ári.
Framlag úr ríkissjóði hækkaði úr 1.468,7 m.kr. í 1.587 eða um 8 prósent. Þar af nam fjárfestingaframlag 20,5 m.kr. og tekjufærsla frestaðra tekna á afskriftum 23,5 m.kr.
Sértekjur Hagstofunnar námu 243 m.kr. sem er lækkun frá fyrra ári, en árið áður voru sértekjur 295 m.kr. Lækkun á tekjum að fjárhæð 51,9 m.kr. skýrist einna helst af lækkun tekna vegna styrkja frá Eurostat. Heildartekjur vegna styrkja námu 61,8 m.kr. en voru 123,3 m.kr. árið áður, samtals lækkuðu því tekjurnar um 61,5 m.kr. Tekjur af sérfræðiþjónustu Hagstofunnar jukust á milli ára, úr 86 m.kr. í tæpar 100 m.kr. árið 2021.
Rekstrargjöld
Heildargjöld ársins námu um 1.838,3 m.kr. með afskriftum, en þau jukust um 47 m.kr. á milli ára, eða um 2,6 prósent. Stærstu útgjaldaliðir Hagstofunnar eru sem áður laun og launtengd gjöld, sem námu 85% af heildargjöldum. Launakostnaður hækkaði um 53,6 m.kr. á milli ára sem nemur 3,4 prósent hækkun. Hússnæðiskostnaður er annar stærsti útgjaldaliðurinn og nam hann 5,8 prósentum af heildarkostnaði.
Bókfærð eignakaup
Fjárfestingaframlag ársins var 20,5 m.kr. Eignakaup eru færð til eignar og afskrifuð yfir lífstíma eignar. Kaupverð varanlegra rekstrarfjármuna nam 19 m.kr. og afskriftir 23,5 m.kr.
Upplýsingatækni
Ný tæknistefna
Á haustmánuðum var samþykkt tæknistefna fyrir Hagstofuna en samið var í maí við ráðgjafafyrirtækið KPMG um að stýra verkefninu og greina stöðu tæknimála hjá stofnuninni.
Er verkefnið hluti af stefnumótun Hagstofunnar 2020–2025. Skoðaðir voru m.a. tækniinnviðir og vél- og hugbúnaður auk öryggis-, skjala- og aðgangsmála. Á grunni greinargerðar var samþykkt tæknistefna fyrir Hagstofuna og settar tímasettar vörður fyrir innleiðingu hennar.
Áhrif nýrrar tæknistefnu
Tæknistefna Hagstofunnar miðar að því að veita framúrskarandi stafræna þjónustu þar sem móttaka gagna og miðlun upplýsinga miðast við þarfir notenda.
Stefnuáherslur eru þrjár; stafræn hagtölugerð, stafræn þjónusta og framúrskarandi tækniumhverfi.
Stafræn hagtölugerð tekur mið af því að leggja áherslu á að starfshættir séu skilvirkir og verkefnamiðaðir. Unnið verður í þverfaglegum teymum og áheyrsla lögð á samvinnu og skilvirkni til að ná fram gagnvirkri miðlun upplýsinga.
Stafræn þjónusta þar sem lögð verður áhersla á að stafræna og gagnvirka móttöku gagna auk þess sem miðlun upplýsinga verður miðuð að þörfum notenda. Lögð verður áhersla á að umhverfi Hagstofunnar styðji við þarfir starfsmanna og að öryggi sé tryggt.
Tæknistefnan leggur jafnframt áherslu á að skapa frammúrskarandi tækniumhverfi þar sem stutt er við þarfir starfsfólks og öryggi gagna tryggt þar sem byggt er á stöðluðum lausnum og samþættum kerfum.
Verkefni er varðar tæknistefnuna verða fjölmörg í kjölfarið og má í því samhengi nefna samræmdan gagnaarkitektúr, betra sniðmát við hagskýrslugerð, stöðluð móttaka gagna, sjálfvirknivæðing ferla, vefur hagstofunnar verður þróaður áfram, nýsköpun efld sem og rekstraröryggi tækniinnviða.
Tækniráð
Í október var í samræmi við nýja tæknistefnu skipað í Tækniráð Hagstofunnar. Tækniráð er stýrihópur upplýsingatæknimála sem sér um breytingastjórnun, val á kerfum og þeim verkefnum sem ráðast á í og forgangsröðun þeirra. Markmið með stofnun tækniráðs er að tryggja betri yfirsýn tækniverkefna, staðla samþykktaferli þeirra og tryggja farsæla innleiðingu.