Frá hagstofustjóra

 

Í ársskýrslu Hagstofunnar er gerð grein fyrir starfseminni á árinu og niðurstöðu fjárhagslegs reksturs. Árið 2021 einkenndist af kórónuveirufaraldrinum og setti það mark sitt á starfsemina og allt félagslíf. Þrátt fyrir það gekk starfsemin vel og áfram var unnið að innleiðingu stefnu Hagstofunnar 2020 til 2025. Útgefið efni jókst um 10% á milli ára í heild og tóku um 10% landsmanna, 16 ára og eldri, þátt í úrtaksrannsóknum Hagstofunnar. Auk þess átti Hagstofan í mikilvægum samskiptum við fyrirtæki og opinberar stofnanir vegna hagskýrslugerðar og aðgangs að rafrænum gögnum. Þakkar Hagstofan landsmönnum fyrir góðar undirtektir við að taka þátt í rannsóknum.

Helstu breytingar á starfseminni á árinu var umbylting á upplýsingatækniumhverfi Hagstofunnar með samþykkt nýrrar tæknistefnu sem enn er í innleiðingu. Hingað til hefur tekist vel til í þeim efnum og er m.a. unnið i samræmi við stefnu ríkisins um stafrænt Ísland. Markmiðið er að tækniumhverfi styðji betur við starfsemina og að bæta þjónustu við notendur. Sýnilegur árangur af því er bætt framsetning á myndrænu efni í útgáfum.

Upplýsingar eru sífellt mikilvægari í hagkerfi nútímans. Traustar og hlutlægar upplýsingar fela i sér verðmæti sem eru mikilvæg þegar mikið er um alls konar efni sem litlar heimildir eða aðferðafræðilýsingar standa að baki. Í Evrópu er unnið að því að opna í auknum mæli aðgang að örgögnum opinberra aðila og einkafyrirtækja innan ramma laga um persónuvernd og viðskiptaleyndamál. Er það hluti af átaki í hagkerfum sem byggja í sífellt auknum mæli á aðgengi að gögnum þar sem tiltölulega fáir stórir aðilar ráða markaðinum. Samkeppnisstaða ríkja er talin ráðast að hluta til af aðgengi að upplýsingum og hagnýtingu þeirra. Mikilvægt er fyrir stjórnvöld hér á landi að fylgjast vel með þeirri þróun og mun Hagstofan ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum sem miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar á Íslandi.

Hagstofan leggur áherslu á að öll aðferðarfræði sé opin og að þeir sem það kjósa geti kynnt sér hana. Á Hagstofan í víðtæku alþjóðlegu samstarfi um aðferðir og staðla til þess að tryggja sem best samræmi og hlutlægni. Einnig lýtur hún utanaðkomandi aðhaldi þar sem aðferðarfræði og vinnubrögð eru rýnd.

Mikilvægt er fyrir hagskýrslugerð í hvaða ríki sem er að borið sé traust til þeirra stofnana sem hafa slíka starfsemi með höndum og að stjórnvöld hlutist ekki til um aðferðarfræði í pólitískum tilgangi. Traust til Hagstofunnar hefur farið vaxandi á undanförnum árum en í fyrra bar svo til að nokkuð dró úr trausti til stofnunarinnar. Er það tilefni fyrir okkur til þess að líta í eigin barm og skoða hvað við getum gert betur.

Styrkur Hagstofunnar felst ekki síst í því góða starfsfólki sem þar starfar og leggur sig fram um að stunda vönduð og hlutlæg vinnubrögð. Einnig með því að vera reiðubúin til þess að skoða hvað megi gera betur og fylgjast vel með tækniframförum og alþjóðlegri þróun í hagskýrslugerð. Stefna Hagstofunnar og ný tæknistefna eru áfangar á þeirri leið sem taka eðlilega breytingum í samræmi við umhverfið.

Hér á eftir er yfirlit yfir helstu nýjungar og breytingar á starfsemi Hagstofunnar árið 2021.

Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri

 

Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri.