Mannauður

 

Í lok árs 2021 störfuðu 125 fastráðnir starfsmenn hjá Hagstofu Íslands í 120 fullum stöðugildum. Kynjahlutföll voru nokkuð jöfn en 45% voru konur og 55% karlar. Hlutfall háskólamenntaðra var 86% en það er svipað hlutfall og verið hefur undanfarin ár. Meðalaldur starfsfólks var tæplega 47 ár og meðalstarfsaldur var tæp 7 ár. Þá störfuðu einnig á árinu 49 lausráðnir spyrlar hjá Hagstofunni sem unnu 6,2 ársverk við innsöfnun gagna sem var nokkuð minna en árið áður.

Yngvi Eiríksson og Bergþór Sigurðsson við grillið.

 

Starfslok

Einn starfsmaður hætti störfum á Hagstofunni á árinu vegna aldurs en Ásta Guðjónsdóttir lét af störfum þann 31. mars eftir langt og giftusamt starf.

Það óvenjulega verður venjulegt

Starfsemi Hagstofunnar gekk vel á árinu sem líkt og árið á undan einkenndist af sóttvörnum og samkomutakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins. Sem fyrr náðist góður árangur í þeim efnum og voru markmið sóttvarnaraðgerða innan stofnunarinnar uppfyllt en markmiðin voru þríþætt.

Fyrir það fyrsta að tryggja heilsu og velferð starfsmanna þannig að þessar krefjandi aðstæður myndu sem minnst bitna á þeim. Í annan stað að lágmarka áhrif faraldursins á rekstur Hagstofunnar og viðhalda sömu gæðum og tímanleika við útgáfu hagtalna. Að síðustu var markmið Hagstofunnar að leggja sitt af mörkum til þess að lágmarka útbreiðslu faraldursins og sýna þannig samstöðu í verki með samfélaginu.

Fjarvinna var töluverð á árinu eins og árið á undan. Í lok sumars hafði þó dregið verulega úr fjarvinnu og flest starfsfólk komið aftur í staðvinnu í Borgartúni. Þar sem fjarvinna hafði gefist vel þegar horft er til árangurs og afraksturs og starfsfólk hafði áhuga á því að nýta sér fjarvinnu áfram að einhverju leyti var mótuð ný stefna um fjarvinnu hjá Hagstofunni um haustið.

Með henni vildi Hagstofan bjóða starfsfólki upp á aukinn sveigjanleika í vinnuumhverfi, styðja við jafnvægi á milli vinnu og einkalífs og stuðla að vellíðan starfsfólks. Töluverður áhugi var hjá starfsfólki á að nýta sér áfram fjarvinnu í einn til tvo daga í viku eða með sveigjanlegum hætti. Með nýrri bylgju smita í lok árs færðist starfsemin þó aftur að stórum hluta í fjarvinnu.

Fræðsla

Framboð fræðslu jókst nokkuð á ný á árinu og var fjarfræðsla í aðalhlutverki. Tekið var upp nýtt fræðslukerfi til þess að miðla og halda utan um fræðslu til starfsfólks á rafrænan máta. Starfsfólki bauðst að auka hæfni sína á ýmsum sviðum hagskýrslugerðar, haldið var vefnámskeið um vinnuheilsu og stjórnendur sóttu fræðslu með áherslu á samskipti, endurgjöf og traust.

Félagslíf

Líkt og árið 2020 var félagslífi Hagstofunnar settar þröngar skorður vegna kórónuveirufaraldursins og þurfti að aflýsa árshátíð, októberfesti og jólaglöggi. Á milli farsóttarbylgja náði þó Starfsmannafélag Hagstofunnar að halda nokkra vel sótta viðburði. Þar ber hæst haustferð Hagstofunnar þar sem starfsmenn fóru í hellaskoðun í Víðgelmi í Hallmundarhrauni, böðuðu sig í Kraumu nálægt Reykholti, heimsóttu Steðja Brugghús og enduðu í minigólfi í Minigarðinum. Starfsmannafélagið stóð einnig fyrir grillveislu, heilsuviku, bolludegi og var jafnframt með þétta jóladagskrá.

 

Ásta Guðjónsdóttir með kveðjublómvönd.

Lárus Blöndal og Ómar Harðarson ræða málin.

Frá hellaskoðun í Víðgelmi.