Gagnasöfnun

 

Söfnun gagna er ein af grunnstoðum hagskýrslugerðar og er unnið að því að efla miðlæga gagnasöfnun innan Hagstofunnar. Á undanförnum árum hafa gagnasöfnunarverkefni í aukunum mæli færst frá hagskýrslusviðunum yfir til gagnasöfnunardeildar og fjölgaði verkefnunum um tólf á milli ára, úr 46 í 58 gagnasafnanir árið 2021. Hagstofan leggur áherslu á að draga úr svarbyrði einstaklinga og fyrirtækja og notar í því skyni stjórnsýsluskrár þar sem þess er kostur. Stofnunin stendur einnig fyrir eigin gagnasöfnun á meðal einstaklinga, heimila, stofnana og fyrirtækja í þeim tilgangi að geta staðið við lagalegar skuldbindingar um hagskýrslugerð.

Valgeir Helgi Bergþórsson, gagnasöfnun.

 

Gagnasöfnun þurfti að taka mið af sóttvarnarreglum stjórnvalda vegna kórónóveirufaraldursins við alla gagnasöfnun og tókst það án þess að svörun í rannsóknum minnkaði eða gagnaskil fyrirtækja drægist saman. Vel var gætt að öllum sóttvörnum í spyrlaveri og aðrir starfsmenn unnu fjarvinnu þegar þess þurfti. Með góðum fjarvinnubúnaði og skipulagi var hægt að halda öllum gagnasöfnunum gangandi án nokkurra hnökra.

Hagstofan stendur að umfangsmiklum úrtaksrannsóknum ár hvert. Heildarföldi þátttakenda í úrtaksrannsóknum um hagi einstaklinga og heimila var tæplega 30 þúsund á árinu eða um 10% landsmanna 16 ára og eldri. Svörun í þessum rannsóknum var að jafnaði um 64%.

Umfangsmestu einstaklings- og heimilisrannsóknir Hagstofunnar eru rannsókn á stöðu fólks á vinnumarkaði og rannsókn á útgjöldum heimilanna en báðar þessar rannsóknir eru framkvæmdar allt árið um kring. Þá rannsakar Hagstofan lífskjör í landinu árlega og notkun einstaklinga og heimila á tækjabúnaði og neti.

Auk þessara fjögurra einstaklingsrannsókna framkvæmdi Gagnasöfnun rannsókn á ferðavenjum landsmanna sem bætist í hóp reglubundinna úrstaksrannsókna Hagstofunnar. Ferðavenjurannsóknin er fyrsta einstaklingsrannsókn Hagstofunnar sem framkvæmd er í fjölviðmóti þar sem þátttakendum er boðið að taka þátt á netinu áður en haft er samband símleiðs. Á árinu hófst einnig undirbúningur á rannsókn á kynbundnu ofbeldi sem framkæmd verður á netinu um mitt ár 2022.

Tvær úrtaksrannsóknir á meðal fyrirtækja voru gerðar á árinu. Annars vegar rannsókn á nýjungum fyrirtækja og hins vegar rannsókn á lausum störfum.

Hagstofan stendur einnig að víðtækri gagnasöfnun á meðal fyrirtækja, annarra rekstraraðila og sveitarfélaga. Þar á meðal er söfnun gagna fyrir launarannsókn, söfnun gagna í upplýsingaveitu sveitarfélaga, söfnun upplýsinga um gistinætur, söfnun vegna þjónustuviðskipta við útlönd, söfnun vegna vísitölu neysluverðs og byggingarkostnaðar, söfnun ýmissa gagna fyrir þjóðhagsreikninga og um starfsemi skóla, mennta- og menningarstofnana.

 

Sesselja Hreggviðsdóttir, gagnasöfnun.

Starfsmenn rekstrarsviðs á fundi.