Skýrsla stjórnar

 

Framkvæmdastjórn hélt samtals 32 fundi á árinu 2021 sem eru nokkru fleiri fundir en undanfarin ár en fjölgun funda stafaði einkum af viðbrögðum við kórónuveirufaraldrinum. Þrátt fyrir að aðstæður hafi ekki verið ákjósanlegar vegna faraldursins tókst engur að síður að ná helstu markmiðum í starfsáætlun ársins.

Stjórn Hagstofu Íslands.

Neðri röð frá vinstri: Elsa Björk Knútsdóttir, Ólafur Hjálmarsson og Böðvar Þórisson.

Efri röð frá vinstri: Björn Rúnar Guðmundsson, Hrafnhildur Arnkelsdóttir og Ólafur Arnar Þórðarson.

 

Samþykkt var á árinu ný tæknistefna sem unnin var með ráðgjöfum KPMG. Teknar voru ákvarðanir um að nýta í auknum mæli staðlaðan hugbúnað, notast við skýjalausnir þar sem það á við og taka fullan þátt innleiðingu Pólstjörnuverkefnisins, stefnu ríkisins í stafrænum málum. Þá var ráðinn tæknistjóri og nýtt tækniráð skipað.

Á meðal verkefna var innleiðing á nýjum hugbúnaði til þess að birta efni betur á myndrænan hátt og auðvelda notendum að nálgast gögn að baki mynda. Einnig var gerður samningur við Vitvélastofnun Íslands (IIIM) um gerð úttektar á frekari tækifærum til þess að nýta tæki gervigreindar og vélnáms við framleiðslu hagtalna í samræmi við tæknistefnuna.

Framkvæmdastjórn samþykkti enn fremur nýja umhverfis- og loftlagsstefnu með það að markmiði að minnka kolefnisspori af starfseminni um helming og mun það hafa áhrif á starfið til frambúðar. Stytting vinnuvikunnar tók gildi í upphafi árs og var unnið að innleiðingunni í góðu samstarfi á milli stjórnenda og starfsmanna. Hefur styttingin í meginatriðum gengið eftir samkvæmt áætlun.

Þá voru gerðar þær breytingar á stjórnun að núverandi sviðsstjóri félagsmálasviðs sinnir einnig samhæfingu hagskýrslugerðar þvert á svið. Hlutverkið felst m.a. í því að hafa yfirsýn yfir og hafa forystu um gerð áætlana og stöðumats á hagskýrslugerð, styðja við innleiðingu laga og reglugerða og vera fulltrúi Hagstofunnar um þau mál eftir því sem þörf krefur.

 
 

Félagsmálatölfræði

 
 

Samningur við Vinnumálastofnun

Hagstofan undirritaði samning við Vinnumálastofnun í byrjun september sem miðar að aukinni notkun gagna frá Vinnumálastofnun í opinberri hagskýrslugerð um vinnumarkaðinn.

Launamunur karla og kvenna

Í september voru birtar niðurstöður rannsóknar á launamun karla og kvenna sem unnin var í samstarfi við forsætisráðuneytið á grundvelli endurnýjaðra tölfræðilíkana.

Kjaratölfræðinefnd

Kjaratölfræðinefnd, sem er samstarfsvettvangur um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag sem Hagstofan á aðild að, birti tvær skýrslur á árinu. Í skýrslunum er fjallað um kjarasamningalotuna sem hófst árið 2019 og þróun efnahagsmála og launa á grundvelli talnaefnis sem Hagstofan vann fyrir nefndina.

Árlegur launakostnaður

Hagstofan hóf birtingar á upplýsingum um árlegan launakostnað, sk. Labour Cost Levels, samkvæmt Evrópska hagskýrslusamstarfinu.

Giftingar og skilnaðir

Birtar voru nýjar tímaraðir um giftingar og skilnaði í samræmi við aðferðir Evrópska hagskýrslusamstarfsins.

Alþingiskosningar

Safnað var gögnum um framkvæmd alþingiskosninga 25. september 2021 og birtar niðurstöður um sveitarstjórnarkosningar í Múlaþingi í september 2020.

Ný vefsíða norrænna nefnda um heilbrigðis- og velferðarmál

Í júní sl. birtist ný vefsíða NOMESKO og NOSOSKO sem eru norrænar nefndir um heilbrigðis- og velferðarmál. Vefsíðan inniheldur norrænt talnaefni um velferð og heilbrigðismál þar sem aðgengi að tölulegum upplýsingum er bætt og samanburður á milli Norðurlandanna auðveldaður til muna. 

Menningarvísar

Fyrsta útgáfa menningarvísa var birt í júní 2021. Menningarvísar byggja á nýrri flokkun Hagstofunnar þar sem talnaefni er flokkað niður eftir menningargreinum. Um er að ræða séríslenska flokkun sem er unnin með þarfir íslenskra notenda á opinberum hagtölum í huga.

Flokkunin byggir í grunninn á skilgreiningu Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, á atvinnugreinum menningar (e. cultural industries) en í nýju flokkuninni eru rekstraraðilar innan ákveðinna atvinnugreina flokkaðir sérstaklega í tíu undirflokka. Fyrirhugað er að byggja á þessari undirflokkun fyrir frekari miðlun hagtalna um menningu á Íslandi auk þess sem fleiri vísum verður bætt í safnið á komandi misserum.

Rannsókn á kynbundnu ofbeldi

Hagstofan hóf undirbúning á rannsókn á kynbundnu ofbeldi sk. Gender Based Violence Survey en verkefnið er styrkt af Eurostat.

Færnispá

Fyrstu niðurstöður færnispár voru birtar sem tilraunatölfræði í desember. Um er að ræða niðurstöður sem byggja á frumgerð af nýju spálíkani um færniþörf á íslenskum vinnumarkaði sem unnið er í samstarfi við hagsmunaaðila en verkefnið er fjármagnað sameiginlega af forsætisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Breytingar á vinnumarkaðsrannsókn

Umtalsverðar breytingar urðu á vinnslu talnaefnis úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar vegna nýrrar rammareglugerðar um úrtaksrannsóknir félagsmálatölfræðinnar og umbóta á aðferðum. Frekari þróun varð á upplýsingum um vinnuaflið byggt á staðgreiðslugögnum með birtingu á niðurbroti talnaefnis eftir opinberum og almennum vinnumarkaði.

Talnaefni um hælisleitendur

Umtalsverðar breytingar urðu á talnaefni sem sent er til Eurostat um hælisleitendur, dvalarleyfi, frávísanir og Dyflinar-tölfræði í samstarfi við Útlendingastofnun.

Breytingar á skólastarfi grunnskóla vegna kórónuveirufaraldursins

Birt var talnaefni um menntun með upplýsingum um breytingar á skólastarfi grunnskóla vegna kórónuveirufaraldursins.

Velsældarvísar

Fyrsta útgáfa velsældarvísa, sem unnir eru í samstarfi við forsætisráðuneytið, kom út í mars 2021. Gefin voru út sérhefti félagsvísa á árinu og félagsvísar á vísasíðu Hagstofunnar uppfærðir. Hagstofan tók þátt í vinnu stýrihóps vegna mælaborðs um stöðu barna, sk. barnavísa.

Bættar upplýsingar um tekjur einstaklinga

Unnið var að bættu framboði opinberra hagtalna með tímanlegum upplýsingum um tekjur einstaklinga og launasummu eftir atvinnugreinum byggt á samtölu staðgreiðsluskyldra greiðslna.

Ný vefsíða um manntalið 2021 opnuð

Ný vefsíða um manntalið 2021 var opnuð á árinu en með manntali er átt við samtíma uppgjör á heimilishögum, búsetu og atvinnu íbúa með viðmiðunardag 1. janúar 2021. Samhliða er einnig unnið að húsnæðistali með sama viðmiðunardag. Um er að ræða stafrænt manntal sem byggir á fjölbreyttum rafrænum heimildum um íbúa og híbýli á Íslandi.

Skýrsla um frjálsa för fólks um Norðurlöndin

Skýrslan Nordic Mobility Report um frjálsa för fólks um Norðurlöndin var gefin út í febrúar á vegum Norræna ráðherraráðsins en hagstofur Norðurlandanna hafa staðið að verkefninu undir forystu finnsku hagstofunnar.

 

Forsíðumynd skýrslu rannsóknar á launamun karla og kvenna.

Anton Örn Karlsson, atvinna, lífskjör og mannfjöldi.

Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir, atvinna, lífskjör og mannfjöldi.

Fundur manntalshóps á Grand hótel.

 

Fyrirtækjatölfræði

 
 

Sameinað svið utanríkisverslunar og fyrirtækjatölfræði

Í kjölfar stefnumótunarvinnu síðla árs 2019 var ákveðið að sameina utanríkisverslun og fyrirtækjatölfræði. Sameiningin kom til framkvæmdar í upphafi árs 2021 en markmið sameiningar er að koma á öflugri þekkingarklasa um tölfræðina. Mismunandi þekking og sérhæfing hefur eflt tölfræðiframleiðsluna og hefur verið unnið á árinu að samþættingu þekkingar og nýtingu gagna.

Í þróun er ný móttaka gagna og vinnsluferli í endurskoðun þannig að auka megi tímanleika og stuðla að auknum gæðum í framleiðsluferlum. Á árinu voru útgáfur um vöru- og þjónustuviðskipti bættar með aukinni sundurliðun og bættum tímanleika.

Umbætur á tölfræði um fyrirtæki

Unnið var að frekara niðurbroti á rekstrarupplýsingum á árinu sem og fjárfestingu fyrirtækja og atvinnugreina. Einnig var unnið að endurskoðun á þeim fyrirtækjarannsóknum sem gerðar eru með það að leiðarljósi að bæta upplýsingarnar án þess að íþyngna fyrirtækjum með umfangsmikilli svarbyrði. Bæta þarf upplýsingar um starfsstöðvar fyrirtækja og almennt um umfang starfsemi fyrirtækja til auðgunar á tölfræðiframleiðslu.

Á árinu 2021 var unnið að innleiðingu á nýrri rammareglugerð um fyrirtækjatölfræði en verkefnið er styrkt af Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Jafnframt var unnið að þróun á tölfræði um samhengi rannsókna og þróunar í atvinnugreinum við arðsemi en þessi þróun hefur einnig verið styrkt af Eurostat.

Á árinu hófst vinna við samnorræna rannsókn á áhrifum kórónuveirufaraldursins á lýðfræði fyrirtækja. Rannsóknin er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni en væntingar eru til þess að rannsóknin geti varpað ljósi á áhrfi faraldursins á atvinnugreinar og lönd.

Tölfræði um rekstur, efnahag og lýðfræði atvinnugreina

Árlega eru birtar heildstæðar tölur yfir rekstrar- og efnahagsyfirlit atvinnugreina. Tölur hafa verið birtar aftur til ársins 2002 til og með 2020. Stöðugt er unnið að frekari auðgun á þessari tölfræði en á árinu var unnið sérstaklega í frekara niðurbroti á rekstrarupplýsingum og lýðfræði atvinnugreina.

Skammtímahagvísar atvinnugreina

Á árinu 2021 unnu teymi skammtímatölfræði og utanríkisverslunar mikið saman í aukinni samnýtingu gagna. Unnið hefur verið að undirbúningi á frekari birtingum á skammtímatölfræði atvinnugreina (e. Short Term Statistics; STS) og birtingu mælaborða atvinnugreina en vaxandi áhugi hefur verið á myndrænni framsetningu.

Tölfræði um ferðaþjónustu

Aukið vægi ferðaþjónustu og áhrif hennar á hagkerfið hefur orðið til þess að ýmis ný tölfræði hefur verið þróuð og birt á síðustu misserum. Á árinu 2021 var haldið áfram að bæta við tímanlegum birtingum, m.a. með mánaðarlegri birtingu á bráðabirgðatölum um gistinætur, en í fyrstu viku hvers mánaðar er nú varpað mynd á gistinætur hótela mánuðina á undan. Jafnframt hefur verið unnið að öðrum endurbótum á birtingu skammtímavísa ferðaþjónustu.

Rannsóknir á nýjungavirkni og nýsköpun fyrirtækja

Á árinu 2021 var gerð rannsókn á nýjungavirkni fyrirtækja. Niðurstöður voru birtar síðla árs 2021 en rannsóknin er framkvæmd annað hvert ár. Jafnframt er gerð rannsókn á útgjöldum fyrirtækja og stofnana til rannsóknar- og þróunarstarfs en sú rannsókn var framkvæmd á árinu 2020 og verður framkvæmd næst á árinu 2022. Rannsóknirnar eru í samræmi við aðferðarfræði OECD og Eurostat.

Sjávarútvegs- og landbúnaðartölfræði

Miklar alþjóðlegar skuldbindingar eru bæði varðandi sjávarútvegs- og landbúnaðartölfræði. Þessar skuldbindingar hafa nær allar verið uppfylltar með framleiðslu á ýmis konar tölfræði. Jafnframt hefur verið vaxandi innlend eftirspurn eftir aukinni tölfræði á þessum sviðum og fyrir vikið hefur ýmis ný tölfræði verið þróuð og birt á síðustu misserum.

Umhverfis- og auðlindatölfræði

Á undanförnum fimm árum hefur umhverfistölfræði verið byggð upp, gögnum skilað til Eurostat og upplýsingar birtar á vef Hagstofunnar. Verkefnið skiptist upp í nokkra hluta og hafa nú nær allar alþjóðlegar skuldbindingar verið uppfylltar. Vaxandi áhugi hefur verið á tímanlegum upplýsingum og fór mikil vinna fram á árinu 2021 við líkanagerð til birtingar á tímanlegum ársfjórðungslegum upplýsingum. Þannig eru m.a. birtar ársfjórðungslegar upplýsingar um útblástur atvinnugreina á gróðurhúsaloftegundum.

 

Fundur með ráðgjöfum í kjölfar sameiningar utanríkisverslunar og fyrirtækjatölfræði þar sem farið var yfir helstu tækifæri sem fólust í sameiningunni.

Finnbogi Gunnarsson, utanríkisverslun.

Ragnhildur Björg Konráðsdóttir, fyrirtækjatölfræði.

Magnús S. Magnússon, sögulegar hagtölur.

 

Efnahagstölfræði

 
 

Nýtt þjóðhagsreikningakerfi

Hafin er uppbygging nýs heildarkerfis þjóðhagsreikninga á grundvelli sérstakrar fjármögnunar og er verkefnið hluti af fjárfestingarátaki stjórnvalda. Verkefnið mun standa yfir í nokkur ár en á árinu 2021 var áhersla lögð á mönnun þess og þjálfun nýrra starfsmanna, kerfishönnun og tæknilega uppbyggingu.

Þjóðhagsreikningar

Hafin var regluleg birting ráðstöfunartekna heimilageirans samkvæmt aðferðafræði þjóðhagsreikninga á ársfjórðungsgrundvelli. Sömuleiðis var áfram unnið að umbótum sem miða að því að auka skilvirkni og gæði í gagnaöflun og sjálfvirknivæðingu flokkunar og úrvinnslu gagna frá opinberum aðilum. Í tengslum við það verkefni var meðal annars hönnuð vitvél (machine learning) sem flokkar allar nýjar færslur samkvæmt viðeigandi flokkunarkerfum.

Bætt aðgengi að gögnum þjóðhagsreikninga

Þá var unnið áfram að innleiðingu SDMX-gagnasniðs fyrir allar afurðir þjóðhagsreikninga og þróun sjálfvirkra sannprófunarferla niðurstaðna. Markmiðið er að allar afurðir þjóðhagsreikninga verði aðgengilegar á hinu samræmda alþjóðlega SDMX-gagnasniði en með því er m.a. stuðlað að bættu aðgengi notenda að mikilvægum gögnum og auðveldari hagnýtingu þeirra, t.d. í rannsóknarstarfi og í alþjóðlegum samanburði.

Opinber fjármál

Í framhaldi af vinnu við endurskoðun geiraflokkunar ríkisaðila á árinu 2020 hefur áfram verið unnið að því að koma flokkun allra stofnana í rétt horf og lögð drög að framtíðarverklagi við reglulega endurskoðun flokkunar í geira. Á árinu 2021 og í byrjun nýs árs 2022 er lögð áhersla á stofnanir sveitarfélaga, fjármálafyrirtæki og félagasamtök.

Ferðaþjónustureikningar

Á grundvelli endurnýjaðs samnings um gerð ferðaþjónustureikninga var unnið að því að auka talsvert tímaleika niðurstaðna og var áætluð hlutdeild ferðaþjónustunnar í landsframleiðslu birt samhliða fyrstu áætlun þjóðhagsreikninga fyrir næstliðið ár í lok febrúar 2021. Síðar á árinu var í fyrsta skipti birt tölfræði um vinnumagn í ferðaþjónustu byggt á stöðlum þjóðhagsreikninga.

Útgjöld vegna Covid aðgerða

Regluleg söfnun upplýsinga um útgjöld opinberra aðila vegna aðgerða til þess að bregðast við kórónuveirufaraldrinum hefur farið fram allt frá byrjun faraldursins. Tölfræði á grundvelli þessara upplýsinga hefur verið miðlað reglulega til stjórnvalda og til almennra notenda.

Breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar

Um síðustu áramót féllu úr gildi lög um vísitölu byggingarkostnaðar (nr. 42/1987) og verður vísitalan því framvegis reiknuð á grundvelli laga um Hagstofu Íslands. Þessi lagabreyting kallaði á mikla undirbúningsvinnu á síðasta ári, bæði tæknilega en einnig samskipti við stjórnvöld og hagsmunaaðila.

Helstu breytingar snúa annars vegar að útreikningi á launakostnaði sem nú tekur mið af launarannsókn Hagstofunnar og hins vegar verði byggingaraðfanga sem nú er mælt án virðisaukaskatts. Við breytinguna er einnig aflögð sú framkvæmd að birta vísitöluna á „gildistíma“ til viðbótar við að birta hana á útreikningstíma. Birting á útreikningstíma heldur hins vegar áfram.

Endurbætur á Útgjaldarannsókn

Gagnger og tímabær endurskoðun var unnin á spurningalista fyrir Rannsókn á útgjöldum heimilanna (RÚH). Nýr listi var tekinn í gagnið í ársbyrjun 2022. Spurningum var fækkað og aðrar einfaldaðar. Fyrir vikið er rannsóknin því auðveldari í framkvæmd og viðtal við þátttakendur styttra.

Stafræn þróun í verðvísitölum og evrópskum verðsamanburði

Mikil þróun var í notkun á netmælingum og kassakerfisgögnum fyrir verð á neysluvörum og þjónustu, bæði í tengslum við vísitölur neysluverðs og evrópskan verðsamanburði (PPP). Aðgengi að rafrænum upplýsingum frá verslunum, auk mikillar fjölgunar vefverslana, hefur haft jákvæð áhrif á þessa framþróun. Þessu til viðbótar var úrtak vísitölu framleiðsluverðs styrkt sérstaklega á árinu, einkum með tilliti til sjávarútvegshluta vísitölunnar.

 

Björn Rúnar Guðmundsson, sviðsstjóri efnahagssviðs.

Sérfræðingar þjóðhagsreikninga fara yfir stöðuna.

Anna Jónsdóttir og Gyða Þórðardóttir á efnahagssviði fara yfir málin.

Gunnar Axel Axelsson, þjóðhagsreikningar og opinber fjármál.

 

Annað

 
 

Þjóðhagsspár

Tvær þjóðhagsspár komu út á árinu. Líkt og árið á undan var mikil óvissa um stöðu og horfur þjóðarbúsins vegna kórónuveirufaraldursins. Þjóðhagsspá kom út 22. mars samfara framlagningu fjármálaáætlunar. Alþingiskosningar að hausti urðu til þess að vetrarspá kom síðar út en vant er eða í lok nóvember. Á árinu var einnig unnið að verkefni sem snýr að því að bæta við þátt opinberra fjármála í þjóðhagslíkani og úrvinnslu þeirra í spáferlinu.

 

Marinó Melsted, rannsóknir og spár.

 

Bætt framsetning á útgefnu efni

Hafist var handa við að innleiða Datawrapper haustið 2021 og skömmu fyrir jólin birtust fyrstu gagnvirku myndritin í fréttatilkynningum á vef Hagstofunnar. Hugbúnaðurinn býður meðal annars upp á þann möguleika að birta myndrit úr útgáfum Hagstofunnar á öðrum vefsíðum (e. embed) og hafa fjölmiðlar þegar nýtt sér það með góðum árangri.

 

Datawrapper, gagnvirkt myndritaforrit sem Hagstofan tók í notkun á árinu.

 

Greindu betur hleypt af stokkunum

Á árinu fékk Hagstofan styrk til þess að þróa þverfaglegt tilraunaverkefni sem ætlað er að gefa unglingum á aldrinum 14 til 18 ára tækifæri til að efla hæfni sína í að nýta upplýsingar á ábyrgan, skapandi og gagnrýninn hátt og getu þeirra til að taka upplýstar ákvarðanir. Verkefnið fékk nafnið Greindu betur og er í formi árlegrar liðakeppni unglinga á aldrinum 14 til 18 ára. Verkefninu var formlega hleypt af stað á Evrópska tölfræðideginum, 20. október en keppnin sjálf mun fara fram vorið 2022.

 

Merki Greindu betur, liðakeppni unglinga í tölu- og upplýsingalæsi.

 

Græn skref í ríkisrekstri

Vinnuhópur Hagstofunnar um Græn skref í ríkisrekstri náði þeim áfanga að innleiða fyrstu tvö skrefin af fimm fyrir áramót. Markmið með grænum skrefum er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi og efla umhverfisvitund starfsmanna. Auk þessa skilaði Hagstofan Grænu bókahaldi. Áfram verður unnið í verkefninu og stefnt er að því að uppfylla öll skrefin fimm á næsta ári.

 
 

Loftlags- og umhverfisstefna

Umhverfis- og loftlagstefna Hagstofunnar var samþykkt undir lok árs. Framtíðarsýn Hagstofunnar felst í því að vera til fyrirmyndar í umhverfis- og loftlagsmálum og lágmarka neikvæð áhrif stofnunarinnar á umhverfið.

Umhverfis- og loftlagsstefna Hagstofunnar nær til allra samgangna á hennar vegum, þ.m.t. ferða erlendis og ferða starfsmanna til og frá vinnu. Stefnan nær einnig til allrar orkunotkunar og úrgangsmyndunar í húsnæði stofnunarinnar og á viðburðum á vegum hennar.

 

Svanhildur Einarsdóttir, rekstur og fjármál.

 

Fjölviðmót einstaklingsrannsókna

Á árinu framkvæmdi Gagnasöfnun einstaklingsrannsókn á ferðavenjum landsmanna í fjölviðmóti þar sem þátttakendum er boðið að taka þátt á netinu áður en haft er samband símleiðis.

 
 

Samið við Vitvélastofnun

Í nóvember var undiritaður samningur við Vitvélstofnun Íslands (IIIM) sem er sjálfstæð stofnun við Háskólann í Reykjavík. Með samningnum munu sérfræðingar IIIM greina tækifæri til þess að nota sjálfvirkni, svo sem vélnám (ML), gagnagröft (DM) og gervigreind (AI), við hagskýrslugerð. Niðurstöðurnar verða í formi skýrslu með yfirliti yfir möguleg verkefni eftir því hve vel þau falla að slíkum tæknilausnum. Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki með skýrslu um miðjan apríl 2022. Er verkefnið hluti af innleiðingu á stefnu Hagstofunnar 2020 - 2025 um að samræma aðferðir og sjálfvirknivæða ferla.

 

Samningur um miðlun gagna frá Vinnumálastofnun til Hagstofu Íslands var undirritaður þann 3. nóvember. Á myndinni má sjá Birnu Guðmundsdóttur frá Vinnumálastofnun og Hrafnhildi Arnkelsdóttur, sviðsstjóra félagsmálasviðs Hagstofunnar, undirrita samninginn.