Þjónusta og samstarf

 

Hagstofu Íslands er mikilvægt að eiga í góðu samtali við notendur hagtalna. Hins vegar var þrautin þyngri að halda hefðbundna notendafundi á meðan kórónuveirufaraldurinn geisaði. Fyrir vikið lá hefðbundið fundahald notendahópa í dvala vegna faraldursins en formlegt notendasamráð mun hefjast á nýjan leik í kjölfar þess að sóttvarnarráðstafanir voru felldar úr gildi.

Ólafur Arnar Þórðarson, sviðsstjóri stjórnsýslu og samstarfs.

 

Ráðgjafanefndir og faghópar

Hagstofan vinnur að eflingu tengsla og þjónustu við íslenskt vísindasamfélag og hefur lagt áherslu á endurgjöf og samstarf við notendur sem vinna að rannsóknarverkefnum á grunni gagna stofnunarinnar. Í tengslum við uppbyggingu rannsóknarinnviða fyrir vísindasamfélagið var haldinn notendafundur með notendum Iðunnar, fjaraðgangskerfi Hagstofunnar, og þarfir notenda í vísindasamfélaginu greindar. Einnig fundaði aðferðafræðiráð stofnunarinnar í tengslum við endurnýjað umboð þess. Þá var fundað þrisvar í faghópi um vinnumarkaðstölfræði en þar er fjallað um niðurstöður birtinga, aðferðir og rannsóknir og efnistök sem og álitaefni varðandi þá tölfræði.

 
 

Rannsóknasamstarf

Á árinu  2021 vottaði Hagstofan þrjá bakhjarla, Hafrannsóknarstofnun, Krabbameinsfélagið og Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og hafa nú rannsakaendur á þeirra vegum leyfi til þess að sækja um örgagnaaðgang til vísindarannsókna. Þá afgreiddi rannsóknarþjónusta Hagstofunnar fimm nýjar umsóknir að örgögnum, en tvær umsóknir eru enn í vinnslu. Í nóvember sótti Hagstofan um styrk í Innviðasjóð Rannís fyrir uppyggingu og þróun rafrænna rannsóknarinnviða og var aðili að einni umsókn í Öndvegissjóð Rannís. Þá tók stofnunin á móti þremur meistaranemum sem unnu verkefni í húsakynnum hennar í tengslum við nám sitt.

 

Arndís Vilhjálmsdóttir, rannsóknarþjónusta.

 
 

Könnun á viðhorfi til Hagstofunnar

Dagana 5.–21. mars kannaði Gallup viðhorf til Hagstofunnar sem og traust til stofnunarinnar. Könnunin náði til 3.167 manns af öllu landinu og var svarhlutfallið 54%. Skoðaðar voru breytingar frá árinu 2008 og 2019 þegar sambærilegar mælingar fóru fram en einnig var samanburður gerður við árlega mælingu Gallup á trausti til stofnana.

Traust til Hagstofunnar

Meirihluti landsmanna ber mikið traust til Hagstofunnar eða 58,3%. Hlutfall þeirra sem bera mikið traust til stofnunarinnar hefur lækkað frá könnuninni sem gerð var árið 2019 en þá var hlutfallið 64,7%. Þetta hlutfall mældist 49,7% árið 2008.

Hagstofan var í 6. sæti yfir þær stofnanir sem mest traust er borið til í landinu. Samkvæmt könnuninni er stofnunin með einkunnina 4,9 en hæst er gefið 7. Mest traust er borið til Landhelgisgæslunnar sem var með 5,6 í einkunn.

 
 

Hversu jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) ertu gagnvart Hagstofu Íslands?

Meirihluti landsmanna er jákvæður gagnvart Hagstofunni eða 51,1%. Þetta hlutfall var 64,2% í könnuninni 2019 sem er töluverð lækkun á milli mælinga en hún er engu að síðu á pari við mælinguna árið 2008.

 
 

Hversu vel eða illa telur þú að Hagstofa Íslands gegni hlutverki sínu?

Hér svöruðu 57,8% landsmanna á þá leið að Hagstofan gegndi hlutverki sínu vel. Hlutfall þeirra sem telja að stofnunin sinni hlutverki sínu vel hefur lækkað um tæp 6 prósentustig frá könnuninni 2019 en var 9 prósentustigum hærra en mælingin 2008.