Miðlun

 

Hagstofan gefur nær daglega út fréttatilkynningar árið um kring. Fréttatilkynningarnar tengjast í flestum tilfellum uppfærslum á talnaefni stofnunarinnar, og eru þá annað hvort í formi frétta eða stuttra fréttamola, en einnig útgáfu Hagtíðinda eða greinargerða. Í langflestum tilfellum eru fréttatilkynningar gefnar út bæði á íslensku og ensku. Árið 2021 gaf Hagstofan út 823 fréttatilkynningar, þar af 420 íslenskar og 403 enskar.

Heiðrún Sigurðardóttir, samskipta- og miðlunardeild.

 

Útgáfum fjölgaði

Útgáfum fjölgaði um 76 á árinu og var aukningin 10,1% borið saman við árið á undan. Horft einungis til útgáfna á íslensku var aukningin 8,5%. Á myndinni sést þróunin í íslenskum útgáfum árin 2020 og 2021 eftir mánuðum.

 

Vefur

Vefur Hagstofunnar, hagstofa.is, er helsti samskiptamiðill stofnunarinnar. Fjöldi notenda vefsins jókst um tæp 4% á árinu 2021 og fór úr 312.728 í 324.211. Notendum fjölgaði þannig um tæplega 11.500 á milli ára eins og sjá má á myndinni.

 

Vinsælustu síðurnar

Líkt og fyrri ár var á árinu 2021 mest aðsókn að síðunni um helstu vísitölur að forsíðunni undanskilinni. Hér má sjá tíu vinsælustu síðurnar á vef Hagstofunnar.

 
 

Fréttaáskrift

Mögulegt er fyrir notendur að gerast áskrifendur að einstökum efnisflokkum Hagstofunnar og fá tilkynningar með tölvupósti þegar nýjar fréttatilkynningar eru gefnar út. Fjöldi áskrifenda í lok ársins 2021 var 1.135 og hafði aukist um rúm 16% á árinu.

 
 
 

Samfélagsmiðlar

Hagstofan birti 189 innslög á Facebook-síðu stofnunarinnar á árinu. Áherslan var sem fyrr á vandað, áhugavert og fjölbreytt efni. Í lok ársins voru fylgjendur á síðu Hagstofunnar orðnir 1.301 en voru 1.156 í lok síðasta árs. Hagstofan miðlar einnig efni á Twitter, bæði á íslensku og ensku. Á íslensku Twitter-síðunni voru birt 191 innslög og 181 á ensku síðunni. Fylgjendum á íslensku Twitter-síðunni fjölgaði um 30 á árinu og voru 180 í lok árs. Fylgjendum á ensku Twitter-síðunni fjölgaði um 110 á árinu og voru í lok ársins 206.

 
 
 

Fréttir um efni Hagstofunnar

Íslenskir fjölmiðlar voru sem fyrr iðnir við að miðla fréttatilkynningum Hagstofunnar áfram til lesenda sinna, hlustenda og áhorfenda. Athyglisvert er í því ljósi að Hagstofan gaf út samtals 420 íslenskar fréttatilkynningar og uppfærslur á síðasta ári á sama tíma og innlendir fjölmiðlar framleiddu 1.875 fréttir þar sem skírskotað var til efnis Hagstofunnar. Þetta eykur enn frekar dreifinguna á því efni sem Hagstofan gefur út og því er um ákveðin margföldunaráhrif að ræða. Fréttum af þessu tagi fækkaði á milli ára og á því geta verið ýmsar skýringar.

 
 

Útgáfa myndbanda

Hagstofan sendi frá sér eitt myndband á árinu sem var dreift á vef stofnunarinnar, Twitter, Facebook og Youtube. Myndbandið var birt á milli jóla og nýárs og í því var farið yfir helstu þróun í hagtölum á árinu.

 
 
 

Upplýsingaþjónusta

Starfsfólk samskipta- og miðlunardeildar svarar fyrirspurnum og leiðbeinir notendum um vef Hagstofunnar. Erindum frá notendum fer fjölgandi með ári hverju.